Súrefni – O2

Nýr súrefnisframleiðslubúnaður settur upp hjá Silfurstjörnunni

– sparar umtalsverðar fjárhæðir árlega vegna flutnings á fljótandi súrefni

„Súrefni er grundSamherjiLogovallaratriði í starfsemi fiskeldisstöðva og hingað til höfum við þurft að flytja til okkar fljótandi súrefni frá Reykjavík með tilheyrandi flutningskostnaði. Með þessum nýja búnaði spörum við okkur mikinn flutningskostnað og framleiðum súrefnið hér á staðnum,“ segir Benedikt Kristjánsson, framkvæmdastjóri Silfurstjörnunnar í Öxarfirði. Fyrirtækið var fyrst íslenskra fiskveldisstöðva til að kaupa Gazcon búnað frá umhverfislausnafyrirtækinu Gaia ehf. en það sérhæfir sig í sölu og uppsetningu á súrefnisframleiðslubúnaði fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi og öðrum matvælaiðnaði. Fiskeldisfyrirtækið Silfurstjarnan framleiðir um 1100 tonn af fiski á ári, bæði lax og bleikju. Yfir 90% framleiðslunnar er eldislax en aðal afurðamarkaður Silfurstjörnunnar er í Bandaríkjunum. Í framleiðsluferli fyrirtækisins er súrefni blandað í vatnið sem dælt er í fiskeldiskerin og til þess gerður búnaður hefur fram að þessu verið tengdur við forðatank með fljótandi súrefni. „Súrefnið hefur þurft að flytja til okkar alla leið frá Reykjavík með sérútbúnum bílum og því hefur fylgt mikill kostnaður enda um langan veg að fara,“ segir Benedikt en nýi búnaðurinn hefur verið í notkun í fáeinar vikur hjá Silfurstjörnunni. Benedikt segir búnaðinn lofa góðu miðað við þá reynslu sem komin er. Við gangsetningu hans voru viðstaddir fulltrúar framleiðandans, Gazcon A/S í Danmörku.

Fjárfesting sem skilar sér hratt til baka

Kristján Pétur Hilmarsson, sölustjóri Gaia ehf., segir kerfið í Silfurstjörnunni geta framleitt rösklega 140 rúmmetra af 95% hreinu súrefni á klukkustund. Við kerfið er fullkominn stjórn- og eftirlitsbúnaður með flæðimæli, daggarmæli, þrýstingsmæli, hreinleikamæli og fleiru. „Við höfum lagt mikið upp úr að kerfin okkar séu viðhaldslítil og skili kaupendum fjárfestingu þeirra til baka á skömmum tíma. Sú hefur líka verið raunin, og við erum nokkuð vissir um að það eigi einnig við hjá fiskeldisstöðvum sunnanlands, þrátt fyrir styttri flutningsvegalengd, endurgreiðslutíminn yrði aðeins lengri en líftími búnaðarins er a.m.k. 10-15 ár miðað við eðlilegar aðstæður.“ segir Kristján Pétur en auk þess að selja búnaðinn annast starfsmenn Gaia uppsetningu kerfanna og þjónustu við þau. „Fiskeldisfyrirtæki þurfa á miklu súrefni að halda í starfsemi sinni og eftir því sem flytja þarf súrefni um lengri veg frá birgja, þeim mun hagkvæmara er að skipta yfir í framleiðslu á staðnum. En í öllum tilfellum teljum við það skref borga sig hratt upp,“ segir Kristján.

Nýverið hefur Gaia ehf. sett upp ósonkerfi í fiskþurrkunarfyrirtækjum hér á landi þar sem mikill árangur hefur náðst í baráttunni við lykt bæði innan og utandyra. Þá bendir Kristján einnig á að sami búnaður og settur var upp í Silfurstjörnunni geti í grunninn framleitt köfnunarefni og verið þannig valkostur fyrir fjölda matvælafyrirtækja sem á slíku þurfa að halda í starfsemi sinni.

Fréttatilkynning mars/apríl 2013

adminSúrefni – O2